top of page
  • Hvað gerist eftir að ljósleiðarinn er kominn til mín ?
    Verkefninu er skipt upp í nokkra áfanga. Eftir að hverjum áfanga er lokið að fullu geta notendur þess áfanga pantað sér fjarskiptaþjónustu um ljósleiðarann. Þegar búið er að ganga frá öllum tengingum í tilteknum áfanga er þjónustuveitum sendar upplýsingar um þau heimili og fyrirtæki sem tilheyra viðkomandi áfanga og upplýsingar um að þau séu tilbúin. Þá skrá þjónustuveiturnar heimilin inn í sín afgreiðslukerfi og eru tilbúin að taka á móti pöntunum á fjarskiptaþjónustu.
  • Hvað er þjónustuveita ?
    Þjónustuveita er fyrirtæki sem selur fjarskiptaþjónustu svo sem farsíma-, internet,-, sjónvarps- og heimasíma þjónustu. Dæmi um þjónustuveitu er Símafélagið, Síminn, Vodafone og 365. Ljósleiðarinn er flutningsleið fjarskipta. Til þess að nýta hann þarf að kaupa fjarskiptaþjónustu frá þjónustuveitu. Hver og einn notandi sem hefur aðgang að ljósleiðara getur valið við hvaða þjónustuveitu hann verslar og einnig hvaða þjónustu hann velur að kaupa.
  • Er ljósleiðari Bláskógaljóss GPON, 100Mbps eða 1000Mbps ljósleiðari ?"
    Ljósleiðarakerfi Bláskógaljóss er GPON, 100Mbps og 1000Mbps(1Gbps) ljósleiðari og jafnvel 10Gbps ef út í það er farið. Ljósleiðarakerfið er P2P (punkt í punkt) kerfi þar sem hver notandi hefur sinn einkaþráð frá tengistað að tengimiðju kerfisins í Reykholti . Þjónustuveitur, þ.e. þær sem selja , sjónvarps og símaþjónustu ráða því alfarið hvaða gagnahraða og fjarskiptatækni þau nota til þess að koma gögnum til sinna viðskiptavina. Ljósleiðarakerfið er því uppbyggt á þann hátt að það stenst tímans tönn, gerir ekki upp á milli fjarskiptatækni og hefur ekki innbyggt hindranir sem henta einni tækni betur en annarri.
  • Hvaða innanhúslagnir þar að leggja ?
    Mjög misjafnt er hvort að leggja þarf innanhúslagnir og í hversu miklu mæli. Algeng útfærsla er að sá endabúnaður sem þjónustuveitur útvega (router) séu notaður til að dreifa interneti þráðlaust um húsið. Í mörgum tilfellum er router því einfaldlega hafður nærri þeim stað þar sem ljósleiðarinn kemur inn í húsið. Til þess að fá sjónvarpsþjónustu um ljósleiðarann þarf að tengja sjónvarpsmóttakara við routerinn. Það er gert með tölvusnúru (CAT5) sem liggur þá á milli routers og sjónvarpsmóttakarans. Til þess að geta nú setið í sófanum fyrir framan sjónvarpið og skipt frá einni sjónvarpsstöð yfir á aðra er heppilegt að sjónvarpsmóttakarinn sé í námunda við sjónvarpið enda stjórnar hann því á hvað er horft hverju sinni. Því þarf oft á tíðum að leggja tölvusnúru frá þeim stað þar sem router-inn er staðsettur og að sjónvarpinu. Það sama gildir í raun um heimasíma ef slík þjónusta er keypt. Heimasíminn þarf að tengjast router-num og ef hann er staðsettur annarsstaðar en heimasíminn þarf að leggja snúru þar á milli.
  • Hver sér um innanhúslagnir inni hjá mér ?
    Eftir að búið er að ganga frá ljósleiðaranum inn fyrir húsvegg er ljósleiðarinn tilbúinn til notkunar. Ef leggja þarf innanhúslagnir t.d. frá inntaksstað ljósleiðara að sjónvörpum er slíkt á hendi húsráðanda. Gott getur verið að ráðfæra sig við rafvirkja hússins um mögulegar fyrirliggjandi lagnaleiðir og jafnvel fá góð ráð frá rafvirkja eða sambærilegum aðila um það hvernig heppilegast er að standa að innanhúslögnum.
  • Ljósleiðarinn er tilbúinn heima hjá mér en ekki tilbúinn til notkunar. Af hverju ?
    Í hverjum verkáfanga eru talsvert mörg heimili auk þess sem að hverjum áfanga tilheyrir hluti stofnkerfisins. Því getur liðið nokkur tími frá því að búið er að ganga frá ljósleiðara inn á tilteknu heimili þar til viðkomandi áfangi sem það tilheyrir er tilbúinn. Til þess að fylgjast með því hvenær tiltekinn áfangi er tilbúinn að fullu er gott að kíkja inn á www.blaskogaljos.net öðru hverju. Þar verða birtar upplýsingar jafnóðum og tilteknir áfangar klárast og eru þar með tilbúnir.
  • Hvað líður langur tími frá því að ég panta þjónustu þar til ég get byrjað að nota ljósleiðarann ?
    Ferlið er eftirfarandi: 1.Notandi pantar þjónustu frá þjónustuveitu. 2.Þjónustuveita pantar ljósleiðara hjá Bláskógaljósi. 3.Bláskógaljós afgreiðir ljósleiðara og tilkynnir þjónustuveitunni að allt sé klappað og klárt. 4.Fulltrúi þjónustuveitunnar ýmist kemur á staðinn til notandans eða sendir honum endabúnað. Þjónustan er tilbúin. Eðli málsins samkvæmt getur þetta ferli tekið nokkra daga og jafnvel vikur. Leitast er við að afgreiða tengingar hratt og örugglega. Hver aðili í keðjunni getur hins vegar ekki ábyrgst viðbragðstíma hvors annars.
  • Hvernig panta ég þjónustu um ljósleiðarann ?
    Þegar ljósleiðarinn er tilbúinn og tilkynning þess efnis birtist á www.blaskogaljos.net er ekkert því til fyrirstöðu að panta þjónustu. Þjónustuveiturnar taka á móti slíkum pöntunum. Þjónustuveiturnar sjá alfarið um samskipti vegna ljósleiðarans. Til þess að panta þjónustu þarft þú því einungis að velja þér þjónustuveitu og panta hjá henni þá fjarskiptaþjónustu sem hentar þér. Rétt er að benda á að þarfir notenda eru mismunandi. Það getur því verið gott ráð að afla tilboða frá fleiri en einni þjónustuveitu og bera saman verð, gagnahraða og gæði þeirrar þjónustu sem þær bjóða.
  • Af hverju get ég ekki pantað fjarskiptaþjónustu hjá Bláskógaljósi ?
    Bláskógaljós er ekki þjónustuveita. Bláskógaljós á einungis, og rekur ljósleiðarakerfið, þ.e. pípurnar sem þjónustan fer um. Bláskógaljós veitir ekki sjónvarps, internet eða símaþjónustu. Öll samskipti vegna þeirrar þjónustu sem notandi kaupir fara því fram á milli notandans og viðkomandi þjónustuveitu sem hann verslar við.
  • Hvert hringi ég til að tilkynna um bilanir og til að fá leiðbeiningar vegna fjarskiptaþjónustu ?
    Ef upp koma vandamál með fjarskiptaþjónustu, nú eða notandi þarf að fá leiðbeiningar eða upplýsingar um þá þjónustu sem hann kaupir hringir viðkomandi í þá þjónustuveitu sem hann er í viðskiptum við. Í lang flestum tilfellum geta þjónustuveiturnar leyst úr því sem um ræðir. Ef t.d. bilun snýr að ljósleiðarakerfinu hefur þjónustuveitan samband við Bláskógaljós og tilkynnir bilanir. Einstaka notendur eiga því í öllum tilfellum að snúa sér til sinnar þjónustuveitu ef eitthvað bjátar á eða skortur er á upplýsingum.
  • Úreldist ljósleiðari ef fjarskiptatækni breytist ?
    Bláskógaljós leggur eingöngu flutningsleið fjarskipta, þ.e. ljósleiðarann sjálfan. Í kerfi Bláskógaljóss er enginn fjarskiptabúnaður sem stjórnar, stýrir eða hefur áhrif á þá fjarskiptaþjónustu sem fjarskiptafélögin velja að selja sínum viðskiptavinum. Ef fjarskiptafélag velur að breyta sinni tækni, auka hraða gagna eða bjóða upp á nýja þjónustu sem við hugsanlega þekkjum ekki í dag, þá flytur ljósleiðarinn þau gögn eftir sem áður. Ljósleiðari Bláskógaljóss er því óháður því að t.d. fjarskiptafélög velji að nota mismunandi fjarskiptatækni til að koma gögnum til sinna viðskiptavina.
  • Af hverju er ekki byrjað að leggja þetta - Hvenær hefjast framkvæmdir ?
    Hér takast á tveir góðir og gildir málshættir. Annar er "hálfnað verk þá hafið er", hinn er, "í upphafi skal endinn skoða". Sveitarstjórn tók ákvörðun um að láta þann síðari verða leiðarljós verkefnisins og tryggja eins og kostur er að allir íbúar muni njóta háhraða fjarskiptaþjónustu eins fljótt og kostur er, í stað þess að vaða af stað út í óskilgreinda óvissu. Undirbúningur að verkefninu er langt á veg kominn. Stefnt að því að bjóða verkefnið út á síðari hluta 2019 og hefja framkvæmdir í beinu framhaldi. Að loknu útboði er stefnt að því að framkvæmdir standi yfir í einu, samhangandi verkefni þar til síðasta heimili í dreifbýli Bláskógabyggðar hefur verið tengt við hið nýja ljósleiðarakerfi.
  • Hvaða þjónustu fæ ég yfir ljósleiðara ?
    Ljósleiðarakerfið getur flutt sjónvarps-, internet-, símaþjónustu og aðra fjarskiptaþjónustu sem framtíðin ber í skauti sér.
  • Get ég valið frá hverjum ég kaupi internet, sjónvarp og símaþjónustu ?"
    Ljósleiðarakerfi Bláskógaljóss er „opið aðgangskerfi“. Það merkir að öllum þjónustuveitum stendur til boða aðgangur að kerfinu á jafnræðisgrunni. Frá kerfismiðjunum liggur ljósþráður til allra notenda, einn til hvers notanda. Ef íbúa velur að versla við fjarskiptafélag A fær það fjarskiptafélag ljósþráð viðkomandi íbúa til afnota og sendir þá fjarskiptaþjónustu sem íbúinn velur að versla til hans. Íbúinn getur því valið við hvern hann verslar.
  • Ég er sumarhúsaeigandi, fæ ég takmarkaða eða ólíka fjarskiptaþjónustu en íbúar og fyrirtæki ?"
    Hver og einn notandi fær sinn ljósleiðaraþráð frá tengistað að kerfismiðju. Það er enginn munur á þeim ljósleiðara sem lagður er fyrir sumarhús eða aðrar byggingar.
  • Ég er eigandi sumarhúss, af hverju greiði ég fyrir mína heimtaug ?"
    Ljósleiðaraverkefnið er að stórum hluta fjármagnað með opinberu fé. Því fjármagni er fyrst og fremst veitt í verkefnið til að bæta búsetu og starfsskilyrði íbúa og fyrirtækja í sveitarfélaginu. Þetta fjármagn má beinlýnis ekki nota til þess að niðurgreiða tengingar við t.d. sumarhús. Sveitarstjórn tók hins vegar þá ákvörðun að bjóða eigendum sumarhúsa og annarra húsa sem ekki uppfylla skilyrði um fasta búsetu eða heilsársstarfsemi að taka þátt í verkefninu. Sú þátttaka byggir á því að þátttakan valdi ekki teljandi kostnaðarauka við verkefnið og jafnræðissjónarmiða sé gætt. Þess vegna greiða eigendur sumarhúsa því sem næst raunkostnað við lagningu á þeirra heimtaug frá stofnkerfinu auk stofngjalds.
  • Við erum þrír eigendur sumarhúsa í hnapp. Getum við sameinast um eina ljóstengingu ?
    Ljósleiðaraaðgangskerfið er hugsað á þann hátt að hver og einn notandi fái sinn ljósþráð. Hver ljóstenging er takmörkuð við einn viðskiptavin. Eigandi þess tengistaðar sem er skráður fyrir tengingunni getur einn pantað sér fjarskiptaþjónustu og er þar með greiðandi af allri þeirri þjónustu sem um ljóstenginguna er keypt.
  • Ég á sumarhús í sumarhúsahverfi. Get ég fengið til mín ljósleiðara, sett upp þráðlaust dreifikerfi og selt öðrum eigendum sumarhúsa aðgang ?"
    Slík þjónusta fellur undir lög um fjarskipti nr. 81/2003. Tæknilega er ekkert þessu til fyrirstöðu. Hins vegar ber að geta þess að núverandi verðskrá er miðuð við að kaupandi þjónustu sé eini notandi hennar. Um leigu á ljósleiðara (black fiber) í öðrum tilgangi t.d. virðisaukandi þjónustu, gilda önnur lögmál í heimi fjarskipta.
  • Hvað kostar að taka inn ljósleiðara ?
    Verkefnið er að lang stærstum hluta fjármagnað fyrir opinbert fé. Verkefninu er fyrst og fremst ætlað að tengja íbúa og fyrirtæki sem búa eða hafa starfsemi á viðkomandi svæði. Gjaldtaka er ólík eftir því hvort að styrkur fæst frá stjórnvöldum til að tengja viðkomandi tengistað eða ekki. Skiptum því svarinu í tvo hluta: 1. Styrkhæfur staður er í stuttu máli, skv. reglum Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytingu annað af tvennu: a)Þar er heimili þar sem íbúi (eða íbúar) er skráður með lögheimili og er þar með heilsársbúsetu. b)Þar er fyrirtæki með heilsársstarfsemi í viðkomandi húsi eða íbúð. Stofngjald fyrir "styrkhæfan stað" er 250,000,- virðisaukaskattur innifalinn. 2. Aðrir tengistaðir eru allar aðrar byggingar svo sem útihús, sumarhús, tækjaskemmur, gistihús til útleigu, óbyggð hús og svo mætti lengi telja. Stofngjald fyrir slíka staði er 250,000,- eins og fyrir styrkhæfa staði. Þar að auki greiðir umsækjandi "því sem næst raunkostnað við lagningu á sinni heimtaug frá næsta tengipunkti kerfisins". Heildarstofngjald slíkra staða er því mjög breytilegt og fer meðal annars eftir vegalengd heimtaugar, umsóknum annarra í næsta nágrenni og þeim jarðvegi sem leggja þarf umrædda heimtaug í. Tilefni er til þess að taka fram að bygging sem skráð er sem suamrhús í fasteignaskrá er ekki styrkhæf, óháð því hvort að þar er starfsemi af einhverju tagi.
  • Hvernig fæ ég upplýsingar um áætlaðan kostnað á heimtaug fyrir sumarhús ?
    Eigendur sumarhúsa þurfa að greiða "því sem næst raunkostnað" vegna lagningu á þeirra heimtaug. Þessi leið er valin til þess að kostnaður fyrir eigendur sumarhúsa verði sem minnstur, þ.e. Bláskógaljós rukkar ekki fyrir annan kostnað en þann sem raunverulega fellur til við lagningu á heimtaug viðkomandi og eigandi sumarhúss nýtur um leið þeirra verða sem verktakinn bauð í útboði verksins. Óskostur þessarar aðferðar er að eigandi sumarhúss veit ekki fyrir víst hver kostnaðurinn verður fyrr en eftir að framkvæmdum líkur við lagningu á heimtauginni. Til þess að vita "nokkurn veginn" hver kostnað verður er heppilegast að senda inn umsókn um ljósleiðara og nota eiðublað E2. Þar með gefur viðkomandi umsækjandi í skyn að áhugi er fyrir hendi, upplýsingar um tengistað koma fram og þar með mögulegt að áætla kostnaðinn. Haft verður samband við umsækjendur og kostnaður áætlaður þegar nær dregur framkvæmdum á hverju svæði fyrir sig. Þar með verður hægt að taka tillit til þeirra umsókna sem borist hafa og reikna inn samlegðaáhrif. Hvorki verður innheimt stofngjald né annar kostnaður fyrr en endanleg ákvörðun liggur fyrir um þátttöku eftir að áætlaður kostnaður liggur fyrir.
  • Hverju breytir ljósleiðari fyrir mig ?
    Ljósleiðari er glerþráður ætlaður til að flytja gögn, ekki ósvipað vatnsröri sem ætlað er að flytja vatn nú eða rafstrengur sem ætlaður er til að flytja rafmagn. Endar ljósleiðarans eru tveir. Annar endinn er á tengistað (heimili, fyrirtæki, sumarhús), hinn endinn er í tengimiðju kerfisins. Tengimiðjan er tengd við aðra ljósleiðara í eigu ýmissa fjarskiptafélaga sem eru hluti af fjarskiptakerfi landsins. Í tengimiðju setja fjarskiptafélög sem selja fjarskiptaþjónustu upp sinn búnað og veita inn á ljósleiðarann þá þjónustu sem hver og einn viðskiptavinur kaupir. Um ljósleiðarann geta notendur þar með keypt sjónvarpsþjónustu, internetþjónustu og símaþjónustu af því fjarskiptafélagi sem velur að veita sína þjónustu inn á kerfið og viðskiptavinur velur að versla við.
  • Á ég að vera með í verkefninu ?
    Hverjum og einum er frjálst að velja það að vera með. Fjarskipti gegna æ stærra hlutverki í daglegu lífi bæði heimila og fyrirtækja. Með verkefninu er verið að endurnýja grunnkerfi fjarskipta. Um sambærilegt grunnkerfi er að ræða eins og raf-dreifikerfi og neysluvatnsveitu. Með því að taka þátt í verkefninu er tryggt að viðkomandi tengistaður hafi fjarskiptatengingu til áratuga óháð tækniframförum.
  • Af hverju þarf ég að greiða fyrir heimtaugina ef ég tengist síðar ?
    Lagning á ljósleiðaraverkefninu er átaksverkefni. Verkefnið nýtur fjárstuðnings frá stjórnvöldum og er til þess ætlaður að byggja upp kerfið á stuttum tíma. Eftir að kerfið er komið í jörð nýtur það ekki fjárstuðnings lengur. Engu að síður njóta „nýir“ notendur þess að stofnkerfið er komið í jörð. Lagnaleið frá stofnkerfi að tengistað getur verið mjög mismunandi. Til þess að gæta jafnræðis greiðir því hver og einn því sem næst raunkostnað við lagningu á sinni heimtaug. Rétt er að benda á að mikil samlegð getur falist því því að plægja ljósleiðaraheimtaug í jörð samhliða öðrum lögnum svo sem neysluvatns-, rafmagns eða öðrum lögnum. Því er vert að skipuleggja slíka vinnu vel áður en haldið er af stað.
  • Hvers vegna þarf ég að greiða stofngjald ?
    Fjarskiptainnviðir í dreifðum byggðum sveitarfélagsins anna ekki þeirri fjarskiptaþörf sem nútíminn krefst. Hvorki stjórnvöld, fjarskiptafélög, sveitarfélagið né aðrir hafa þá lögbundnu skildu að endurnýja þessa innviði. Árið 2016 ákvað sveitarstjórn Bláskógabyggðar að athuga hvort að hægt væri að finna flöt á því að leggja ljósleiðarakerfi fyrir íbúa í dreifbýli. Niðurstaða varð sú að ef stjórnvöld, íbúar og sveitarfélagið legðist á eitt væri verkefnið framkvæmanlegt. Árið 2018 og 2019 fékkst svo loks styrkur til verkefnisins af hálfu stjórnvalda. Verkefnið er að lang stærstum hluta fjármagnað fyrir opinbert fé. Stofngjald notenda var hins vegar nauðsynlegt til að brúa bilið að fullu.
  • Ef ég vill ekki vera með núna, get ég tengst kerfinu síðar ?"
    Í hönnun kerfisins er töluverður aukaforði af ljósleiðaraþráðum. Það er gert til þess að hægt sé að bæta við nýjum notendum við síðar. Þessi forði er hins vegar ekki óþrjótandi og því er ekki hægt að svara því með óyggjandi hætti að um aldur og æfi verði hægt að tengjast kerfinu á einfaldan hátt. Einnig ber að nefna að aðkoma stjórnvalda að þessu sinni í formi styrks er einskiptis aðgerð. Það má því leiða líkur að því að þátttaka síðar verði töluvert kostnaðarsamari fyrir viðkomandi en býðst nú.
  • Hvar sæki ég um ljósleiðara hjá Bláskógaljósi ?
    Hægt er að sækja um að taka þátt í verkefninu með því að fylla út umsókn sem er hér á síðunni, undirrita hana og skila inn á skrifstofu sveitarfélagsins. Velja þarf rétt umsóknareiðublað eftir því hvort að tengistaður uppfyllir skilyrði um fasta búsetu/heilsársstarfsemi E-1, eða ekki. Ef ekki, t.d. sumarhús, útihús, vélaskemmur, þá er eyðublað E-2 notað.
  • Ég á sumarhús og vil hugsanlega tengjast kerfinu síðar. Get ég borgað stofngjald en lagt heimtaugina mína síðar ?
    Boð Bláskógaljóss til eigenda sumarhúsa um þátttöku í verkefninu gildir hér og nú. Hvort hægt verði að tengjast kerfinu síðar verður framtíðin að leiða í ljós. Það er því ekki í boði að greiða eingöngu stofngjaldið og hafa þar með ótakmarkaða heimild til þess að tengjast kerfinu um ókomna framtíð.
  • Hvað er þjónustuveita ?
    Þjónustuveita er fyrirtæki sem selur fjarskiptaþjónustu svo sem farsíma-, internet,-, sjónvarps- og heimasíma þjónustu. Dæmi um þjónustuveitu er Símafélagið, Síminn, Vodafone og 365. Ljósleiðarinn er flutningsleið fjarskipta. Til þess að nýta hann þarf að kaupa fjarskiptaþjónustu frá þjónustuveitu. Hver og einn notandi sem hefur aðgang að ljósleiðara getur valið við hvaða þjónustuveitu hann verslar og einnig hvaða þjónustu hann velur að kaupa.
  • Er öll fjarskiptaþjónusta um ljósleiðara eins ?
    Fjarskiptaþjónusta um ljósleiðara getur verið mismunandi. Þjónustuveitur bjóða upp á heimasíma, Internet eða sjónvarpsþjónustu, nú eða bjóða þetta allt saman. Viðmót í sjónvarpsþjónustu er mismunandi á milli þjónustuveita og einnig getur gagnahraði internetsins verið mismunandi. Það er því um að gera að spyrjast fyrir um þá þjónustu sem þær bjóða svo sem gagnahraða, fjölda sjónvarpsstöðva og svo framvegis. Það eru engar spurningar rangar í þessum efnum.
  • Er flókið að skipta frá einni þjónustuveitu til annarrar ?
    Ljósleiðarakerfi Bláskógaljóss er svokallað opið aðgangskerfi. Það þýðir að öllum þjónustuveitum er frjálst að veita sinni fjarskiptaþjónustu inn á ljósleiðarakerfið. Um leið opnar það möguleika á því að prófa mismunandi þjónustuveitur eða þá að skipta frá einni yfir í aðra ef að þjónusta uppfyllir ekki væntingar. Það er ekki flókið að skipta um þjónustuveitur. Þú segir einfaldlega upp þeirri þjónustu sem þú hefur og pantar hjá þeirri þjónustu sem þú villt fá í staðinn. Rétt er þó að benda á að skoða hvort að binding er fólgin í þeim samningum sem gerðir hafa verið.
  • Hvernig færist ljósleiðarinn frá einni þjónustuveitu til annarrar ?
    Bláskógaljós stjórnar því hvaða þjónustuveita hefur aðgang að ljósþráðum hvers heimilis. Ef notandi velur að versla við þjónustuveitu A fær sú þjónustuveita ljósþráðinn sem liggur til notandans til afnota. Ef notandi velur nú að skipta yfir til þjónustuveitu B flytur Bláskógaljós ljósþráðinn yfir í búnað þjónustuveitu B sem þá getur veitt sína fjarskiptaþjónustu um ljósþráðinn. Flóknara er það ekki.
  • Mér finnst þetta alger frumskógur, hvað á ég að gera?"
    Það er ekki óeðlilegt að flækjast svolítið um allt það sem í boði er. Það á ekki síst við þegar verið að að byrja að kaupa sér fjarskiptaþjónustu um ljósleiðara því þá vantar viðmið. Allskyns sjónvarpspakkar, mismunandi niðurhal og svo framvegis. Það er engu að síður þess virði að velta því vel fyrir sér hver þörfin er. Það getur verið klókt að byrja smátt. Kaupa tilteknar grunnþjónustur, svo sem grunnpakka í sjónvarpi og bæta svo frekar við ef þörf er á. Það sama gildir um internetið. Flestar þjónustuveitur bjóða upp á góðar „Mínar síður“ þar sem hægt er að fylgjast með notkun dag frá degi og átta sig á því hver raunþörfin er miðað við notkun.
  • Skiptir máli við hvaða þjónustuveitu ég vel að versla ?
    Það getur skipt töluverðu málið við hvaða þjónustuveitu verslað er. Virk og öflug samkeppni er á þessum markaði og því er um að gera að vega og meta hvaða þjónustuveita þjónar best þörfum hvers og eins. Helstu matsþættir gætu verið verð, þjónusta og gæði. Eins kunna aðrir þættir að spila inn í eins og viðbragð við bilunum, vöruframboð og svo framvegis.
  • Hvert hringi ég til að tilkynna um bilanir og til að fá leiðbeiningar vegna fjarskiptaþjónustu ?
    Ef upp koma vandamál með fjarskiptaþjónustu, nú eða notandi þarf að fá leiðbeiningar eða upplýsingar um þá þjónustu sem hann kaupir hringir viðkomandi í þá þjónustuveitu sem hann er í viðskiptum við. Í lang flestum tilfellum geta þjónustuveiturnar leyst úr því sem um ræðir. Ef t.d. bilun snýr að ljósleiðarakerfinu hefur þjónustuveitan samband við Bláskógaljós og tilkynnir bilanir. Einstaka notendur eiga því í öllum tilfellum að snúa sér til sinnar þjónustuveitu ef eitthvað bjátar á eða skortur er á upplýsingum.
  • Get ég flutt mína áskrift á milli fjarskiptafélaga ?
    Ef íbúi sem er í viðskiptum við fjarskiptafélag A en af ótilgreindum ástæðum vill skipta yfir til fjarskiptafélags B er það hægt. Þá fær fjarskiptafélag B ljósþráð íbúans til afnota í stað fjarskiptafélags A. Þó ber að geta þess að í samningsskilmálum á milli íbúa og fjarskiptafélags kunna að vera ákvæði um binditíma sem vert er að gefa gaum þegar íbúi velur sér fjarskiptafélag til að versla við.
  • Ég vil skipta frá einni þjónustuveitu til annarrar. Hvað tekur það langan tíma ?
    Það er ekki hægt að svara þessari spurningu með tilteknum dagafjölda. Tíminn sem það tekur að skipta yfir veltur á því hversu hratt hin nýja þjónustuveita bregst við og hvernig ferlið er hjá henni frá pöntun til uppsetningar og virkjunar á þjónustu. Það er ekki óvarlegt að gera ráð fyrir að slík skipti taki 15-20 daga frá því að pöntun hjá nýju þjónustuveitunni liggur fyrir og þar til hún er komin í virkni.
  • Get ég fengið þjónustu frá öllum fyrirtækjum á landinu ?
    Ljósleiðarakerfi Bláskógaljóss er opið aðgangskerfi. Það merkir að öllum þjónustuveitum er boðið að veita sína fjarskiptaþjónustu inn á kerfið. Það er hins vegar ákvörðun hverrar þjónustuveitu, þ.e. fjarskiptafélags, hvort hún vill selja sína fjarskiptaþjónustu inn á kerfið. Bláskógaljós heldur ekki utan um skrá yfir þær þjónustuveitur sem veita sína fjarskiptaþjónustu inn á kerfið enda geta slíkar ákvarðanir þjónustuveitna breyst frá mánuði til mánaðar. Eina ráðið fyrir notendur er því að hringja í þá þjónustuveitu sem viðkomandi vill versla við og kanna hvort að hún veitir þjónustu inn á kerfi Bláskógaljóss.
bottom of page