Samningur við Ísland ljóstengt 2018 undirritaður
Þann 23. mars 2018 skrifuðu fulltrúar fjarskiptasjóðs og sveitarfélaga undir 24 samninga um styrki fjarskiptasjóðs vegna ljósleiðaravæðingar sveitarfélaga í tengslum við landsátakið Ísland ljóstengt. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, staðfesti samningana með undirskrift sinni og fór athöfnin fram í ráðuneytinu.
Sveitarfélögin 24 fá samtals 450 milljónir króna í styrki, á bilinu 2 til 74 milljónir króna hvert. Auk styrkja frá fjarskiptasjóði þá leggja íbúar og sveitarfélög að lágmarki 350.000 kr. af mörkum vegna hverrar tengingar en í mörgum tilfellum er þörf á töluvert hærra framlagi heimamanna.
Ráðherra skrifaði jafnframt undir samtals100 milljón króna samninga við 15 sveitarfélög um sérstaka byggðastyrki á bilinu ein til 15 milljónir króna í tengslum við Ísland ljóstengt.
Í hlut Flóahrepps féllu rúmar 74 milljónir, auk þess sem að sveitarfélaginu var úthlutað 4,2 milljónir í byggðastyrk. Flóahreppur hlaut því hæsta styrk á landsvísu til framkvæmda á árinu 2018.
Helgi Kjartansson og Sigurður Ingi Jóhannsson undirrita samninga um styrki vegna uppbyggingu á ljósleiðarakerfi í Bláskógabyggð.