top of page
Søg
  • Guðmundur Daníelsson

Framkvæmdarfréttir

Frá miðjum september hafa verktakar okkar unnið hörðum höndum að því að tengja sem flesta á sem skemmstum tíma. Upphaflega var áætlað að opna fyrir hvern áfanga fyrir sig í kjölfar verkloka við hvern áfnaga fyrir sig. Það tókst okkur að gera með fyrstu áfanga verksins, þ.e. áfanga 1,2,5 og 8. Framkvæmdir við vegagerð á Reykjaveginum töfðu hins vegar lagningu á ljósleiðara á mikilvægum stofnlínukafla og því hafa áfangar 3,4,7 og 10 nú beðið svo gott sem tilbúnir í nokkrar vikur. Það sér fyrir endann á því. Þessi staða skýrir það að áfanga 3,4,7,9 og 10 verða allir tilkynntir til fjarskiptafélaga svo gott sem samtímis.

"Tilkynntir til fjarskiptafélaga" er lykillinn að því að notendur geti pantað sér fjarskiptaþjónustu enda staðfestir Bláskógaljós, með tilkynningunni, að ljósleiðarinn til þeirra notenda sem tilkynningin nær til, sé tilbúinn til notkunar.

Á verkfundi í gær kom fram að ef fram fer sem horfir verða áfangar 3,4,7,9 og 10 tilbúnir til notkunar í lok næstu viku, þ.e. 4. desember. Vissulega þurfa nokkrir þættir að ganga upp, en verktakinn okkar hefur fullvissað okkur um að hann sé nú þegar með viðbragðsáætlanir til þess að bregðast við fyrirsjáanlegum atburðum sem kunna að koma uppá við lokafrágang og mælingar.

Hingað til höfum við beðið eftir því að verktaki skili af sér hverjum áfanga, fullfrágengnum, áður en hann er tilkynntur til fjarskiptafélaga. Einskonar varúðarráðstöfun. Í ljósi þess að stór hluti áfanganna fimm er nú þegar unninn og því tilbúinn ætlum við að bregða út af þessu verklagi og flýta ferlinu að því marki að þið getið notið fjarskiptaþjónustu um ljósleiðarann sem fyrst.


Síðar í dag sendum við fjarskiptafélögum lista yfir notendur í áföngum 3,4,7,9 og 10. Fjarskiptafélögin hefjast þá handa við að skrá tengistaðina, þ.e. heimili, fyrirtæki og sumarhús, inn í sín kerfi. Við skulum gefa þeim daginn í dag og morgundaginn (föstudag) til þess að ljúka þeirri vinnu. Á mánudag geta sem sagt þeir íbúar og notendur sem tilheyra áföngum 3,4,7,9 og 10 haft samband við sitt fjarskiptafélag og ýmist fengið hjá þeim tilboð í fjarskiptaþjónustu nú eða pantað sér þjónustu. Frá og með föstudeginum 4. desember geta notendur, sem hafa nýtt sér næstu viku til að panta sér fjarskiptaþjónustu, þar með átt von á heimsókn frá sinni þjónustuveitu. Það er því tilvalið að taka frá kvöld í næstu viku, kveikja á kerti og fá sér kakóbolla og fara gaumgæfilega yfir þau tilboð sem þjónustuveiturnar bjóða ykkur, þ.e. ef þið hafið ekki gert upp hug ykkar nú þegar.


Rétt er að minna á mikilvægi LL númers hverrar tengingar. Þetta númer er kennitala ykkar tengistaðar og tryggir að sú þjónusta sem þið pantið ykkur verði afhent einmitt hjá ykkur. LL númerið er skráð á tengibox ljósleiðarans á hverjum stað fyrir sig og er á forminu LL.XXX.TXX.XX. T.d. LL115.T54.01. Hafið þetta númer endilega við höndina í ykkar samskiptum við þjónustuveitur.


Það má búast við nokkrum handagangi í öskjunni við að tengja nýja notendur í desember. Innan áfanga 3,4,7,9 og 10 eru hátt í tvö hundruð tengistaðir, þ.e. heimili, sumarhús og fyrirtæki. Það er hins vegar von okkar að með þessu móti stuðlum við að því að sem flestir, sem þess óska, geti horft á sjónvarp yfir jólahátíðina í gegnum ljósleiðarar Bláskógaljóss. Við bíðum ekki boðanna ef breyting verður á og tilteknir áfangar verða tilbúnir áður en þessi áætlun gerir ráð fyrir. Komi til þess verður slíkum upplýsingum komið á framfæri jafnharðan hér á heimasíðu verkefnisins.


Þess ber að geta að vinna við síðasta áfanga verksins, áfanga 6 stendur yfir og verður fram haldið sleitulaust áfram. Jarðvinna í þeim áfanga er mjög langt komin og því ekki útlit fyrir annað en að vinnu við þann áfanga ljúki einnig á næstu vikum.


100 visninger0 kommentarer

Seneste blogindlæg

Se alle

Comments


bottom of page