Það ríkir eftirvænting eftir því að ofangreindir áfangar klárist. Að sögn verktakans okkar leggja hans menn nú nótt við dag við frágang og mælingavinnu. Okkur hafa borist skilaboð frá fjarskiptfélögum þess efnis að þau hafa lokið við skráningu á tengistöðum í áföngum 3,4,7,9 og 10 og því er ekkert því til fyrirstöðu hjá íbúum sem tilheyra þessum áföngum að panta sér fjarskiptaþjónustu. Töluverður fjöldi pantana hefur nú þegar borist og bíða afgreiðslu. Hvað gerist næst ?
Eins og farið var yfir fyrr í vikunni þá erum við að flýta ferlinu. Það sem gerist næst er því eftirfarandi:
Notandi í einum af áfanga 3,4,7,9 eða 10 pantar sér fjarskiptaþjónustu hjá sínu fjarskiptafélagi (munið LL númerið).
Fjarskiptafélagið pantar, jafnóðum, heimtaugar hjá Bláskógaljósi fyrir sína viðskiptavini.
Þar til áfanginn, sem notandinn tilheyrir, er að fullu tilbúinn og Bláskógaljósi hefur borist fullnaðargögn þess efnis frá verktakanum stoppar ferlið hér í bili. Um leið og okkur berast fullnægjandi niðurstöður gæðamælinga fyrir áfangann tengir Bláskógaljós þá notendur sem tilheyra áfanganum og upplýsir um leið fjarskiptafélögin.
Fjarskiptafélögin senda sína fulltrúa í heimsókn til ykkur til þess að setja upp búnað og koma á tengingu.
Við bíðum því nú eftir því að niðurstöður gæðamælinga berist okkur og um leið og tiltekinn áfangi er tilbúinn opnum við á tengingar innan hans.
Í vikunni bárust okkur fyrirspurnir frá íbúum um það hvort að það geti verið rétt að öll fjarskiptafélög vilji ekki selja sína fjarskiptaþjónustu um ljósleiðarann í Bláskógabyggð ? Því er til að svara að þetta má vel vera rétt. Það er val fjarskiptafélaga að selja ykkur sína þjónustu. Bláskógabyggð leggur ljósleiðarann og gerir hann tilbúinn til notkunar. Jafnframt býður Bláskógabyggð öllum fjarskiptafélögum jafnan og opin aðgang að ljósleiðarakerfinu. Það er hins vegar fjarskiptafélaganna að ákveða hvort að þau vilja nýta sér kerfið. Það er því ekki sjálfgefið að öll fjarskiptafélög landsins velji það að selja sína fjarskiptaþjónustu um kerfið, ekki frekar en að vara frá tilteknum framleiðanda fæst í öllum verslunum. Þetta val er alfarið fjarskiptafélaganna og Bláskógabyggð hlutast ekki til um þetta.
Jafnharðan og tiltekinn áfangi verður tilbúinn setjum við upplýsingar um það hér á síðuna.
Comments